Hulda og Arndís

Rithöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hafa skrifað saman þrjár skáldsögur, tvær fyrir ungt fólk, og þá nýjustu, glæpasöguna Morð og messufall, fyrir fullorðna lesendur.

Fyrsta atvinnuviðtal Sifjar, nýútskrifaðs guðfræðings, fer ekki eins og hún hafði vonað. Eftir að þau sóknarpresturinn ganga fram á lík við altarið er henni boðin tímabundin staða kirkjuvarðar frekar en prestsembætti. Hún einsetur sér að sanna sig en fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist í sókninni

Dröfn hefur aldrei hitt ömmu sína svo að óvænt ferðalag á afskekktu eyjuna hennar hljómar spennandi. En ferðin verður fljótlega dálítið skrýtin. Hvernig er hægt að þola svona takmarkað samband við umheiminn? Búa allir furðufuglarnir á eyjunni virkilega í einni blokk? Og er mögulegt að einhver í blokkinni vilji Dröfn og fjölskyldu hennar illt?

Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Mamma hennar er áhrifavaldur sem tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. En nú versnar í því! Mamma Lindu keppir um pláss í nýjum raunveruleikaþætti. Ef allt fer á versta veg fá þau nýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð mun fylgjast með!