Mömmuskipti

Mömmuskipti kom út í október 2023. Forlagið gefur út.

Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Samfélagsmiðladrottningin
mamma hennar tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd
af Lindu er þekkt um allan heim. Sjálf vill hún helst af öllu fá að vera í friði og æfa parkúr án þess að fólk fatti að hún sé klósettkrakkinn.

En nú versnar í því! Mamma Lindu er einn af áhrifavöldunum sem keppa um pláss í raunveruleikaþættinum Mömmuskiptum. Barbara systir er æsispennt, pabba virðist standa á sama og enginn hlustar á hávær mótmæli Lindu. Ef allt fer á versta veg fá þau glænýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð mun fylgjast með!

Pétur Atli Antonsson teiknaði kápu og myndir í bókinni.

Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2024 og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2024. Hún var í þriðja sæti Bóksalaverðlaunanna í flokki íslenskra barna- og ungmennabóka.

Mömmuskipti er fjörug, stórfyndin og virkilega vel skrifuð barnabók. Ég mæli með henni helst í alla jólapakka því innihaldið mun gleðja hvern einasta fjölskyldumeðlim.

Rebekka Sif, Lestrarklefinn

Frumleg saga sem fjallar á meinfyndinn en einlægan hátt um líf barna hinna svokölluðu áhrifavalda. Hvers virði er einkalífið? Er hægt að setja það upp í súlurit og kökur?  Hve mikið ætlum við að láta snjalltækin stjórna lífi okkar?

Barna- og ungmennabókadómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023